Guggú

Mánudagsmorgun, eitt ósvarað símtal ca. klukkan 11. Systir mín hafði hringt og ég fékk ónotatilfinningu. Ég hringdi tilbaka og fékk þær fréttir að Guggú væri dáin. Uppáhaldsfrænka mín var farin að hitta mömmu mína...saman hönd í hönd inn um himnadyr og skilja okkur eftir hérna niðri til að halda áfram.

Guðrún Hjörleifs eða Guggú var, að öðrum frænkum ólöstuðum, mín uppáhaldsfrænka. Hún var alltaf, og ég meina alltaf tilbúin að spjalla. Ég man eftir ótrúlega mörgum góðum stundum með henni fyrir ofan Sparkaup þar sem Guggú bjó fyrst þegar hún bjó í Keflavík.

Hún var einstakur stuðningur fyrir mig í gegnum ýmsar stundir í mínu lífi, bæði í gegnum súrt og sætt. Það sem var svo gott að hún var snillingur að "teikna upp" núverandi aðstæður og kannski benda á eina til tvær leiðir út úr ákveðnu ástandi. Hún tók ekki ákvarðanir fyrir mig, enda hefði það verið rangt, en hún hjálpaði mér að sjá hvaða leiðir voru færar. Fyrir það verð ég að eilífu þakklátur.
Hlátur er það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til Guggú og reyndar alla Eleonórudeildina. Ofsaleg gleði var alltaf þegar ég hitti Guggú og þó kannski það lægi illa á þá var húmorinn alltaf skammt undan.
Śeinustu árin, eðlilega kannski, var lengra á milli heimsókna. Ég hitti Guggú seinast jólin 2008 og þó heimsóknin var stutt þá var hún góð. En síminn var ekki langt undan...

Ragnhildur, Atli og Elonóra hafa misst mikið allt, allt of snemma og mína innilegustu samúðarkveðjur til þeirra. Samúðarkveðjur einnig til Dodda, Magnúsar, Hanný, Eddu og Stínu. Systkinahópur sem er einstakur. Samheldnin frábær og nú hoggið mikið skarð áný í þennan einstaka hóp.

Guggú, takk fyrir frábærar stundir. Þú varst og ert í einu orði frábær!

kveðja,

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur